Athugið

Vafrinn sem þú ert að nota er í of gamallri útgáfu til þess að hægt sé að tryggja rétta upplifun við notkun hans. Sterklega er mælt með því að þú uppfærir vafrann. Smelltu hér til þess að fara á uppfærslusíðu Microsoft.

Uppfærslusíða Microsoft

1. Almennt

Það er stefna Leigufélags Búseta (félagið) að berjast gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og koma í veg fyrir að þjónusta félagsins sé misnotuð í slíkum tilgangi. Reglurnar byggja á þeirri stefnu og lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og tengdum stjórnvaldsfyrirmælum.

Markhópur leigufélagsins er eingöngu einstaklingar en ekki lögaðilar. Leigufélag Búseta tekur ekki við reiðufé. Einu viðskipti Leigufélagsins og einstaklinga eru leigugreiðslur, umsýslukostnaður og geymsla tryggingarfjár.

Þær skyldur sem kveðið er á um í reglum þessum gilda um sérhvern starfsmann félagsins og stjórnarmenn.

2. Tilgangur

Starfsfólk félagsins skulu þekkja deili á þeim viðskiptavinum sem þeir veita þjónustu og gæta þess að félagið búi yfir fullnægjandi upplýsingum um viðkomandi viðskiptavin.

Starfsmenn skulu gæta þess að þeir sem koma fram fyrir hönd viðskiptavinar hafi fullnægjandi umboð til þess. 

Starfsmenn skulu ætíð vera á varðbergi gegn óeðlilegum eða grunsamlegum viðskiptum eða hátterni viðskiptavina og tilkynna ábyrgðarmanni ef upp kemur grunur um að viðskipti kunni að tengjast refsiverðu lögbroti. Starfsmenn skulu leita eftir ráðgjöf og stuðningi ábyrgðarmanns eftir þörfum.

3. Áhættumat

Til að ná markmiðum sínum hefur félagið framkvæmt áhættumat á rekstri sínum í samræmi við 5. gr. laganna og sett sér stefnu og verkferla sem lögin kveða á um.

4. Áreiðanleikakönnun

Félagið skal framkvæmda viðeigandi áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum áður en viðskipti hefjast og viðhafa virkt og áhættumiðað eftirlit með viðskiptavinum og viðskiptum þeirra.  Til þess er notast við áreiðanleikakönnun frá Creditinfo. Áreiðanleikakönnun skal ávallt vera framkvæmd á grundvelli áhættumats skv. 3. gr. og styðjast skal við allar nauðsynlegar upplýsingar.

5. Varðveisla gagna

Félagið skal varðveita eftirfarandi gögn og upplýsingar, þar á meðal  upplýsingar sem hefur verið aflað með rafrænum hætti, að lágmarki í fimm ár frá því að samningssambandi lýkur eða einstök viðskipti hafa átt sér stað:

  1. afrit af gögnum og upplýsingum vegna áreiðanleikakönnunar í samræmi við III. kafla,
  2. aðferðir við áreiðanleikakönnun,
  3. nauðsynleg fylgiskjöl og viðskiptayfirlit, hvort sem er frumrit eða afrit sem eru nauðsynleg til að sýna fram á færslur viðskiptamanna og hægt væri að nota við meðferð máls fyrir dómi.

Gögnum sem varðveitt eru í samræmi við 1. mgr. skal eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til varðveislu þeirra í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Eftirlitsaðilar samkvæmt lögum nr. 140/2018  og skrifstofa fjármálagreininga lögreglu geta kveðið á um að gögn séu varðveitt umfram tímamörk 1. mgr. ef tilefni er til, þó ekki lengur en í fimm ár til viðbótar.

6. Tilkynningar

Félagið, starfsfólk og stjórnendur skulu tímanlega:

  1. tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, með þeim hætti sem hún ákveður, um grunsamleg viðskipti og fjármuni sem grunur leikur á að rekja megi til refsiverðrar háttsemi,
  2. bregðast við fyrirspurnum skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um viðbótarupplýsingar sem tengjast tilkynningum og
  3. veita skrifstofu fjármálagreininga lögreglu allar nauðsynlegar upplýsingar sem hún óskar eftir í tengslum við tilkynningar.

Ábyrgðarmaður sem tilnefndur er í samræmi við 34. gr. laga 140/2018 skal tryggja að tilkynningar skv. 1. mgr. séu sendar á skrifstofu fjármálagreininga lögreglu þess ríkis þar sem tilkynningarskyldur aðili er með staðfestu.

7. Ábyrgðarmaður

Ábyrgðarmaður ber ábyrgð á framkvæmd aðgerða félagsins skv. lögum nr. 140/2018 og samsvarandi innri reglum.  Ábyrgðarmaður annast tilkynningar um grunsamleg viðskipti til viðeigandi yfirvalda vakni grunur um eða verði hann var við slíka ólögmæta starfsemi.

Ábyrgðarmaður skal tryggja að stjórn félagsins sé nægilega upplýst um áhættur að því er varða peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, svo henni sé kleift að grípa til viðeigandi ráðstafana til að draga úr og stýra slíkum áhættum.

Ábyrgðarmaður er Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri félagsins.

8. Fræðsla

Ábyrgðarmaður skal tryggja að starfsfólk félagsins fái viðeigandi fræðslu um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og reglur þessar við upphaf starfs og með reglubundnum hætti á starfstímanum.

9. Endurskoðun

Endurskoða skal stefnu þessa eins oft og þurfa þykir, þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári. 

Svo samþykkt á stjórnarfundi félagsins þann 21. ágúst 2025